Sjá jafnframt prentaða útgáfu bókarinnar Norðurlandamálin með rótum og fótum:

Nord 2004:11

ISBN 92-893-1040-5

Nánari upplýsingar

Norræn tungumál að fornu og nýju

Lík og ólík mál, málaættir og skyldleiki mála

Arne Torp

Skandinavía: Mismunandi mál eða bara mállýskur?

Landfræðilegt svæði, þar sem talmál breytist á þann hátt að nágrannar geta alltaf talað hver við annan á móðurmálinu og þannig að hvorugur þurfi sérstaka þjálfun eða kennslu til þess að skilja hinn, er kallað mállýskusamfella. Hér á eftir má sjá hverju hægt er að hugsa sér að menn úr þremur stórum skandinavískum borgum myndu svara væru þeir spurðir hvar þeir byggju. Hér myndí skilningur ekki valda vandamáli þrátt fyrir að ekki sé um nágrannaborgir að ræða. Athugið að stafsetningin sýnir framburðinn en ekki hvernig stafsett er á hefðbundnu ritmáli.

Svæðisbundnar mállýskur í Skandinavíu mynda þannig eina mállýskusamfellu. Ef ferðast er suður um Finnmörku í Noregi eftir Noregi, Svíþjóð og Danmörku til Suður-Jótlands eða vestur frá Austurbotni í Finnlandi í gegnum Norður-Svíþjóð að vesturströnd Noregs myndu nágrannamállýskur alltaf vera gagnkvæmt skiljanlegar.

Fjarlægðarmál

Ef t.d. bóndi úr Älvdalen í Svíþjóð og sjómaður frá Vestur-Jótlandi í Danmörku ætluðu að tala saman hvor á sinni svæðisbundnu mállýsku myndu þeir lenda í vandræðum. Vegna þess að älvdalsmál og vesturjóska eru augljóslega ekki gagnkvæmt skiljanleg, þau teljast til ólíkra fjarlægðarmála. Þrátt fyrir það tilheyra þessi tvö talmál sömu mállýskusamfellu sökum þess að það eru engin mikilvæg skil milli svæðisbundinna mállýskna milli Dalanna og Vestur- Jótlands. Um er að ræða hægfara breytingu.

 

Fjarlægðarmál

Langi þig að heyra hvernig älvdalska og jóska hljóma geturðu fundið hljóðdæmi á þessum vefsvæðum:

swedia.ling.umu.se
www.statsbiblioteket.dk/dlh

Á landamærasvæðinu milli Svíþjóðar og Noregs er það næstum því pólitísk ákvörðun að ákveða hvort telja á mállýsku til sænsku eða norsku – sums staðar hafa landamærin reyndar færst til síðustu hundrað árin – Jämtland og Härjedalen voru t.d. norsk svæði fyrir 1645. Hins vegar er mjög auðvelt að greina hvort Norðmaður talar samísku eða norsku eða hvort Finni talar finnsku eða sænsku. Í þeim tilvikum er ekki um neina hægfara breytingu að ræða heldur er það spurning um annaðhvort eða.

Það leikur heldur enginn vafi á því hvaða mál er talað á landamærasvæð i Þýskalands og Danmerkur þótt möguleikarnir geti verið margir og fjarlægð milli mála miklu minni. Hér mætast nefnilega þrjár mismunandi germanskar mállýskur: suðurjóska, lágþýska (= niðurþýska) og norðurfrísneska. Þar að auki eru í dag margir sem tala bæði ríkisdönsku og háþýsku á landamærasvæðinu. Þrátt fyrir að bilið á milli málanna sé langtum minna en á milli finnsku og sænsku eru ríkisdanska og háþýska ekki heldur milliliðalaust gagnkvæmt skiljanlegar. Í öllum þessum tilvikum er sem sagt um að ræða mismunandi fjarlægðarmál vegna þess að nágrannarnir skilja ekki mál hinna nema þeir hafi lært það.

Um suðurjósku, lágþýsku og norðurfrísnesku

Ekki er til neitt viðurkennt staðlað ritmál fyrir þessar þrjár mállýskur. Á heimasíðum, sem eru á slóðunum hér á eftir, má lesa meira um hverja mállýsku og m.a. sjá að til eru margar ólíkar hugmyndir um hvernig á að lýsa framburðinum. Sá sem talar frísnesku í dæminu hér á eftir er frá bæ sem á háþýsku heitir Niebüll (formið Naibel er svokallað „Algemeyn Nedersaksisch Schryvwyse“ þ.e.a.s. almennur lágsaxneskur ritháttur).

Lágþýska:
Frísneska:
Suðurjóska:

 

Staðalmál

Fram að þessu hefur verið rætt um skandinavísku mállýskusamfelluna eins og það séu ekki til nein önnur talmál í Skandinavíu en svæðisbundnar mállýskur. Öllum er auðvitað ljóst að um það er alls ekki að ræða – frekar hið gagnstæða. Í dag eru það svokölluð staðaltalmál sem eru ríkjandi, að minnsta kosti í Danmörku og Svíþjóð.

Staðaltalmál er talmál sem er staðlað, þ.e. til eru reglur um hvernig talmálið eigi að vera. Staðaltalmál eru þar að auki í samfélögum okkar mjög nátengd ritmáli. Bæði staðaltalmál og ritmál er tiltölulega samræmt á stærra svæði, t.d. innan þjóðríkis. Að þessu leyti skilur staðalmálið sig frá mállýskunum sem eru breytilegar eftir stöðum og eru oftast aðeins til sem talmál. Reglurnar um rétt málfar eru aðeins til í heila þess sem talar viðkomandi mállýsku.

Venjulega nýtur staðaltalmál mun meiri virðingar en staðbundnar mállýskur. Fyrir þessu eru aðallega félagslegar ástæður, meðal annars vegna þess að bæði staðaltalmálið og ritmálið grundvallast á talmáli þeirra sem skara fram úr stjórnmálalega og efnahagslega, oftast í tengslum við höfuðborgina. En sökum þessarar félagslegu virðingar verður líka til hugmyndin um að staðalmálið sé eina „rétta“ málið og að mállýskurnar séu á einn eða annan hátt gallaðar. Þegar rætt er um danskt og sænskt mál er það að öllum líkindum staðalmál í riti og ræðu sem um er að ræða; danskar og sænskar mállýskur eru eiginlega eitthvað annað.

Í Danmörku og Svíþjóð hnignar hefðbundnum mállýskum á flestum svæðum mjög mikið, þannig að það er aðeins eldra fólk úti á landi sem talar „ekta mállýsku“ eins og málvísindamenn myndu kalla það. Þar að auki myndu allflestir Danir og Svíar næstum því ósjálfrátt fela svæðisbundna mállýsku þegar þeir tala við fólk úr öðrum landshlutum.

Í Noregi eru aðstæður aðrar. Ástæður þess eru meðal annars að í Noregi eru tvær útgáfur af ritmáli, svokallað bókmál og nýnorska, sem farið verður betur yfir síðar. En hinar sérstæðu aðstæður í Noregi varðandi málið endurspeglast einnig í þeirri staðreynd að svæðisbundnar mállýskur eru meira notaðar í Noregi en í nágrannalöndunum. Formlega opinberast umburðarlyndið fyrir norskum mállýskum t.d. við það að norskum kennurum er ekki heimilt að leiðrétta talmál nemendanna – nemendur hafa með öðrum orðum fullan rétt til að nota sitt eðlilega talmál í kennslustundum, óháð því hvaða mállýsku er um að ræða. Og í rauninni kemur það sama í ljós þegar staðbundnar mállýskur í Noregi eru notaðar við aðstæður þar sem í nágrannalöndunum þykir sjálfsagt að nota staðaltalmál – t.d. þegar þjóðkjörnir þingmenn gera athugasemdir á þjóðþinginu, Stortinget. Í talmiðlum eins og hljóðvarpi og sjónvarpi eru einnig oft talaðar mállýskur. Þeir einu sem eru skyldaðir til þess að halda sig við bókmál eða nýnorsku eru starfsmenn norska ríkisútvarpsins NRK þegar þeir nota handrit, en ekki í frjálslegum viðtalsþáttum.

<< Fyrri síða [Bls. 6 af 15] Næsta síða >>